Heilsuborgin Reykjavík
Lýðheilsa
Við viljum skapa heilsueflandi og öruggt samfélag, þar sem fólk á öllum æviskeiðum hefur jöfn tækifæri til að hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu. Lengi býr að fyrstu gerð, en aukin áhersla á vellíðan barna í daglegu lífi er mikilvægur grunnur að virkri þátttöku, aukinni færni og árangri. Hugað verður sérstaklega að geðheilbrigði og andlegri líðan, og aukin áhersla lögð á forvarnir á öllum æviskeiðum.
Enn betri Laugardalur
Á komandi árum er mikil uppbygging fyrirhuguð í Laugardal. Á meðal helstu verkefna eru enduruppbygging Laugardalslaugar, nýtt Vísinda- og upplifunarsafn, viðbygging við Skautahöllina, tennishús og nýr gervigrasvöllur.

Ný íþróttahús
Reykjavíkurborg áformar að byggja íþróttamannvirki fyrir rúma 20 milljarða króna á næstu 10 árum og er þar byggt á tillögum stýrihóps um stefnu í íþróttamálum sem verður höfð til hliðsjónar við undirbúning 10 ára fjárfestingaráætlunar Reykjavíkurborgar.
Ný íþróttamiðstöð í Úlfarsárdal
Úlfarsárdalur er stórt útivistarsvæði sunnan Úlfarsfells. Samnefnd íbúðabyggð liggur í norðvesturhluta dalsins en sunnan dalsins er Grafarholt. Notkun svæðisins til útivistar fer ört vaxandi, og mun aðsóknin aðeins aukast með tilkomu nýrrar og glæsilegrar íþróttamiðstöðvar.
Endurbætt skíðasvæði
Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins eru vinsæll samkomustaður yfir vetrarmánuðina. Nú hefur verið samþykkt að ráðast í endurnýjun og uppsetningu þriggja stólalyfta í Bláfjöllum og endurnýjun stólalyftu í Skálafelli. Ennfremur verður settur upp búnaður til snjóframleiðslu í Bláfjöllum. Samhliða þessum verkefnum verður unnið að áframhaldandi uppbyggingu á skíðagöngusvæði og bættum aðstæðum fyrir skíðagöngufólk.

Nýjar sundlaugar
Á komandi árum eru fyrirhugaðar fjárfestingar á tveimur nýjum sundlaugum. Ein í Fossvogi, í samstarfi við Kópavogsbæ og önnur við Ártúnshöfða sem áætlað er að verði staðsett á lykilstað með sjávarútsýni.
