Fjölbreytt menning, nám og nýsköpun
Menntun og menning
Samfélag og umhverfi Reykjavíkurborgar er uppspretta lærdóms allt æviskeiðið, þar sem fjölbreytt menning og nýsköpun gegna lykilhlutverki. Í skóla- og frístundastarfi borgarinnar er lögð áhersla á frumkvæði, heilsusamlegan lífsstíl, snjallvæðingu og gagnrýna hugsun. Börnin eru hvött til að lesa sér til gagns og gamans, afla sér þekkingar og öðlast skilning á samfélagi og náttúru. Velferðarþjónusta á einnig að styðja við vöxt, nám og þroska sem stuðlar að jákvæðum breytingum í lífi fólks.
Menning
Eitt af markmiðum Græna plansins er að tryggja jöfn tækifæri og aðgengi innan menningarstarfsemi borgarinnar. Því verður ráðist í ýmsar endurbætur á söfnum og menningarstofnunum, aðgengi bætt, merkingar uppfærðar og hlúð að starfsemi.

Grunnskólar
Reykjavíkurborg rekur 36 grunnskóla og tvo sérskóla. Auk þess eru 6 sjálfstætt starfandi grunnskólar í borginni. Alls stunda um 15.500 börn og unglingar nám í þessum skólum.
Í skólastarfi er haft að leiðarljósi að börnum líði vel, að þeim fari stöðugt fram og að þau öðlist uppeldi og menntun fyrir líf og starf.

Leikskólar
Leikskólar borgarinnar eru 64 en auk þeirra eru 17 sjálfstætt starfandi leikskólar í borginni. Leikskólabörnin eru um 6.450.
Leikskólinn er fyrsta skólastigið og þar læra börnin í gegnum leik allt milli himins og jarðar, ekki síst að vinna saman og bera virðingu fyrir fjölbreytileikanum.

Frístundastarf
Fimm frístundamiðstöðvar eru í hverfum borgarinnar þar sem óformlegt nám, forvarnir og félagsstarf fyrir börn og unglinga er skipulagt. Á þeirra vegum eru rekin 37 frístundaheimili og 24 félagsmiðstöðvar, þar af 4 sértækar félagsmiðstöðvar fyrir fötluð börn og unglinga. Reykjavíkurborg rekur einnig 4 skólahljómsveitir með um 500 nemendum.
