Leikskólar
Í yfir 60 leikskólum borgarinnar dvelja hátt í sex þúsund börn. Sérútbúnar ungbarnadeildir eru í mörgum skólum. Auk þess eru átján sjálfstætt starfandi leikskólar í borginni. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og þar læra börnin á skapandi hátt allt milli himins og jarðar og ekki síst að vinna saman.
Aukin þjónusta fyrir þau yngstu
Lengi býr að fyrstu gerð, og einmitt þess vegna er svo mikilvægt að bjóða upp á fjölbreytta og góða þjónustu fyrir yngstu kynslóðina. Eftir því sem borgin stækkar og fólki fjölgar eykst einnig þörfin fyrir viðbætur á yngsta skólastiginu. Það þarf að stækka við og byggja nýja leikskóla ásamt því að uppfæra ýmsa þjónustu.

Byggjum og breytum
Næstu árin verður farið í mikla uppbyggingu fyrir yngsta skólastigið. Byggðir verða nýir leikskólar, t.d. í Völvufelli, auk þess sem eldri skólar munu fá löngu tímabæra yfirhalningu, þar á meðal Engjaborg, Brekkuborg, Sæborg, Heiðarborg, Klettaborg, Fífuborg, Rauðhóll, Árborg og Ægisborg. Leikskólalóðir verða víða endurgerðar og nýjum leikskóladeildum bætt við, mötuneyti endurnýjuð, starfsmannaaðstaða uppfærð og lagður grunnur að ýmsum undirbúnings- og hönnunarverkefnum vegna viðhalds.