Jafnræði og velferð óháð bakgrunni
Samfélag fyrir alla
Fjölbreyttar raddir samfélagsins eiga skilið að heyrast og hafa vægi. Allir hafa rétt á öruggu húsnæði, framfærslu, og aðgengilegri þjónustu. Þá á öryggisnet á að grípa þau sem þess þurfa. Farið verður í uppbyggingu á búsetukjörnum og öðrum húsnæðisúrræðum á vegum húsnæðisfélaga og Félagsbústaða. Unnið verður gegn sárri fátækt með markvissum og valdeflandi hætti. Allir eiga að geta framfleytt sér og fengið atvinnu eða staðið til boða viðeigandi félags- eða fjárhagslegur stuðningur.
Engin skilin eftir
Til þess að markmið Græna plansins nái fram að ganga verður að leggja ríka áherslu á samfélagslega þætti og tryggja að engin verði skilin eftir við uppbygginguna. Markviss undirbúningsvinna er í gangi hvað varðar stefnumarkandi þætti og mótun aðgerða þegar kemur að samfélagslegum þáttum, eins og t.d. ný velferðarstefna ásamt aðgerðaáætlun og aðgerðaáætlun gegn sárafátækt. Markmið í efnahags- og umhverfismálum þurfa einnig að taka samfélagið með í reikninginn og gæta þess að aðgengi að þeim tækifærum sem sköpuð eru, verði fyrir alla.
Mikilvægi samstöðu
Borgin hvetur til samstöðu þegar erfiðleikar steðja að svo borgin verði sterkari á eftir sem samfélag. Til þess þarf að viðhafa lýðræðisleg vinnubrögð, hafa skilning á fjölbreytileika mannlífs og tryggja að fjölbreyttri menningu sé gert jafn hátt undir höfði. Í margbreytileika felst styrkur sem getur unnið bug á fátækt, stuðlað að friði og tryggt lífsskilyrði og lífsgæði fyrir alla hvar sem þeir búa. Að gera sér grein fyrir mikilvægi eigin velferðar og annarra er forsenda sjálfbærrar þróunar.

Öryggi, húsnæði, atvinna
Við höfum öll rétt á því að búa við öryggi, aðgengi að öruggu húsnæði og atvinnu. Tryggja þarf góð skilyrði til að skapa nýjan grundvöll undir atvinnulíf og fjölgun starfa. Fjölskyldur gegna lykilhlutverki í uppeldi og velferð barna og Reykjavíkurborg styður foreldra í því hlutverki. Reykjavíkurborg hefur frumkvæði að samstarfi við hagsmunaaðila og aðrar stofnanir og svið og deildir borgarinnar vinna saman sem ein heild.
- Vinnum gegn sárri fátækt með markvissum og valdeflandi hætti.
- Brúum bilið milli fæðingarorlofs foreldra og leikskólagöngu barns.
- Tryggjum umönnun og stuðning við börn fjölskyldna í viðkvæmri stöðu strax í frumbernsku í samstarfi við heilsugæslu.
- Byggjum húsnæði fyrir þau sem þurfa stuðning í samvinnu við húsnæðisfélög og Félagsbústaði.
- Byggjum nýja búsetukjarna fyrir fatlað fólk og tryggjum viðhald á eldri kjörnum.
- Aldraðir hafi húsnæði við hæfi, hvort sem það er með breytingu á eigin húsnæði, í samvinnu við húsnæðisfélög eða á annan hátt.
Fólk í fyrirrúmi
Við eigum öll skilið að vaxa, dafna og una okkur saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs. Skóla-, frístunda-, íþrótta- og menningarstarfsemi og velferðarþjónusta borgarinnar á að skapa öllum jöfn tækifæri. Öll þjónusta á að vera einföld, aðgengileg og skipulögð út frá þörfum notenda. Huga verður að okkar yngsta og elsta fólki, tryggja jafnan rétt allra til góðs lífs og leggja áherslu á að þau sem það vilja geti búið lengur á eigin heimili, sem eykur bæði lífsgæði og virkni í samfélaginu.

Samtal og þátttaka íbúa
Lykilatriði í heilbrigðu borgarsamfélagi er samtalið við borgarbúa. Reykjavíkurborg hefur á undanförnum árum gefið borgurunum ýmis tæki til að hafa áhrif á umhverfi sitt og með nýrri tækni verður hægt að þróa það áfram. Íbúar eiga að hafa tækifæri til þess að vinna með borginni að bættum lífsgæðum í umhverfi þeirra. Fjölbreyttar raddir samfélagsins þurfa að heyrast og hafa vægi. Allir fái hvatningu til að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samfélag.
- Markvissir lýðræðisferlar og virkt og reglulegt samtal við íbúa og hagsmunaaðila.
- Stafræn umbreyting borgarinnar auðveldar aðgengi að upplýsingum til allra hópa og gefur þeim rödd.
- Gagnvirkt samtal milli Reykjavíkurborgar og íbúa og þess sérstaklega gætt að ná til fólks með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og viðkvæma og jaðarsetta hópa.
- Tryggja aðgengi allra borgarbúa að kosningum m.t.t aðgengis og að efni sé auðskilið.
- Sjálfseflingar-, félagsfærni- og lýðræðisverkefni í skóla- og frístundastarfi.