Hugmyndaleit
Húsnæði framtíðar með léttu vistspori

Reykjavíkurborg auglýsir eftir skapandi hugmyndum að íbúðarhúsnæði framtíðarinnar þar sem grænar lausnir eru í forgrunni.
Borgin áformar að leggja til spennandi þróunarreiti í nokkrum hverfum og hvetja þannig til vistvænnar uppbyggingar.
Grænni framtíð
Húsnæðismál eru eitt mikilvægasta verkefni samtímans. Á sama tíma og mikil þörf er fyrir íbúðarhúsnæði þá skilur byggingariðnaðurinn eftir sig stórt kolefnisfótspor. Það er því þörf á skapandi lausnum þar sem grænar lausnir framtíðarinnar eru í forgrunni. Til framtíðar viljum við sjá grænt borgarumhverfi, sem býður upp á grænan lífsstíl í samgöngum, borgarbúskap/matjurtarækt, endurvinnslu og sorplausnum, blágrænum ofanvatnslausnum, svo dæmi séu tekin.
Á undanförnum árum hefur Reykjavíkurborg unnið að nýjum lausnum í húsnæðismálum. Annars vegar með verkefninu um hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur þar sem verið er að þróa og byggja íbúðir á níu reitum víðsvegar um borgina. Hins vegar með þátttöku í verkefninu Reinventing cities (C40) þar sem lykilreitir í borginni eru þróaðir samkvæmt lausnum á sviði sjálfbærni, umhverfisgæða og lægri kolefnisfótspors.
Svæði í boði
Byggt á þessari reynslu tekur borgin næsta skref og leggur með því til þróunarreiti til uppbyggingar á húsnæði sem mun vera í fremstu röð hvað varðar sjálfbærni og umhverfisgæði. Hluti uppbyggingar á hverju svæði verður fyrir hagkvæmt húsnæði, húsnæðisfélög og/eða leiguhúsnæði.
Lóðirnar sem Reykjavíkurborg leggur til eru á Veðurstofureit, við Arnarbakka, Völvufell, Suðurfell og Suðurlandsbraut. Aðilar geta einnig bent á önnur svæði ef þau telja það áhugavert. Skipulagsvinna fyrir framangreindar lóðir er mislangt komin.

Ertu með hugmynd?
Reykjavíkurborg kallar nú eftir hugmyndum að húsnæði framtíðarinnar og/eða annarri grænni umbreytingu. Öllum er velkomið að senda inn erindi, hvort sem það er ný hugmyndafræði, ný byggingaraðferð eða blanda aðferða:
- Hugmyndafræði: leiðir sem geta auðveldað fólki að komast í gott húsnæði um leið og vistspor verkefnisins er minnkað. Til dæmis nýsköpun í byggingartækni, leigufyrirkomulagi eða fjármögnun.
- Byggingaraðferð: hugmyndir sem minnka verulega vistspor væntanlegra bygginga.
Sendu erindi þitt fyrir 26. maí
Öllum er velkomið að senda inn erindi. Með erindi sínu geta áhugasamir aðilar forgangsraðað á hvaða svæðum þau vilja þróa sínar lausnir og tilgreini hugmynd að fjölda íbúðareininga sem þau sjá fyrir sér á þeim reit.
Aðilum er boðið að senda inn hugmyndir á netfangið: athafnaborgin@reykjavik.is með efnislínunni „Húsnæði framtíðarinnar“. Lokafrestur til þess að skila inn erindi er 26. maí 2021.
Gögnum skal skilað á rafrænu formi, að hámarki 1.500 orð, ásamt skýringamyndum.

Hvernig verður unnið úr erindum?
Fulltrúar Reykjavíkurborgar munu fara yfir innsendar hugmyndir og óska eftir atvikum eftir að fá nánari kynningu á hugmyndum. Mögulegt er að haldið verði málþing þar sem ákveðnar lausnir verða kynntar nánar.
Að hugmyndaleit lokinni er fyrirhugað að ákveðnar lóðir verði boðnar til úthlutunar.