Orkuskipti
Orkuskipti eru lykilatriði þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í þeim felst að farið er markvisst í aðgerðir sem auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa, á kostnað eldri orkugjafa sem menga meira. Einfalt dæmi um þetta væri að skipta úr bensínbíl yfir í rafmagnsbíl. Reykjavíkurborg stefnir á kolefnishlutleysi ekki seinna en árið 2040, og því leggur græna planið mikla áherslu á orkuskipti í sinni aðgerðaáætlun.
Orkuskipti í samgöngum
Lögð verður áhersla á snarpan samdrátt í losun vegna umferðar í Reykjavík sem fyrst og fremst felur í sér breyttar ferðavenjur og orkuskipti í samgöngum. Aðgerðir sem greiða fyrir grænum samgöngum eru meðal annars efling almenningssamgangna, hjólreiðaáætlun, verkefni á sviði örflæðis og framkvæmdir fyrir gangandi vegfarendur. Fjárfesting í Borgarlínu er meðal þeirra verkefna sem marka munu vatnaskil í almenningssamgöngum og umbreytingu borgarinnar í græna átt.
Græni ramminn
Verkefni tengd orkuskiptum falla undir svokallaðan Grænan ramma sem Reykjavíkurborg hefur sett sér. Græni rammi Reykjavíkurborgar er miðaður við græna skuldabréfafjármögnun á verkefnum sem styðja við umhverfis- og auðlindastefnu Reykjavíkurborgar og eiga að skila umhverfislegum ábata.

Orkuskipti í innviðum
Stutt verður við orkuskipti og fjárfest í innviðum fyrir atvinnubifreiðar, fyrirtækjaflota og bílaleigur. Þá verður stefnan sett á kolefnisleysi í innkaupum borgarinnar, orkuskipti í bílaflota borgarinnar og að fjárfest verði í innviðum sem styðja við orkuskiptin.