Nýr borgarhluti í mótun
Ártúnshöfði og Elliðaárvogur
Ártúnshöfði og Elliðaárvogur er nýr borgarhluti í mótun og eitt stærsta þróunarsvæði Reykjavíkur. Áætlað er að þar verði allt að átta þúsund íbúðir í fullbyggðu hverfi í bland við þjónustu og aðra atvinnustarfsemi.
Umhverfisvottað og grænt hverfi
Megináherslur Græna plansins verða að veruleika í þessu nýja hverfi – á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog. Til verður þétt, umhverfisvottuð byggð í góðum tengslum við hágæða almenningssamgöngur. Miklir möguleikar eru til samgönguhjólreiða, góðra lífsgæða, uppbyggingar íbúða fyrir alla og síðast en ekki síst, grænt og fallegt hverfi.
Myndin sýnir Hamarsstíg milli svæðis 1 og 2.

Breyttir tímar kalla á breytta notkun
Hugmyndir um þróun Ártúnshöfða og Elliðaárvogs hafa lengi verið á dagskrá. Árið 2015 var haldin hugmyndasamkeppni um þróun svæðisins og í framhaldi var unnið rammaskipulag sem var samþykkt í ársbyrjun 2016. Frá þeim tíma hefur verið unnið að deiliskipulagi einstakra hluta svæðisins og hefur t.d. skipulag fyrir stækkun Bryggjuhverfis til vesturs þegar verið samþykkt.
Vinna við deiliskipulagstillögur svæða 1 og 2 er langt komin og stefnt er að því að formlegt auglýsingarferli deiliskipulagstillagna hefjist fyrir áramót 2020/2021.
Menningarhús við Krossmýrartorg
Borgarlína mun liggja um Ártúnshöfðann og mun Krossamýrartorg verða í hjarta hverfisins. Við torgið verður menningarhús og fjölbreytt verslun og þjónusta, auk almenningsgarðs fyrir aftan menningarhúsið.

Svæðisskipting fyrir Ártúnshöfða og Elliðaárvog
Síðastliðin misseri hefur verið unnið að deiliskipulagstillögum fyrir svæðin næst þróunarás Reykjavíkur, nánar tiltekið svæði 1 og 2. Fasteignaþróunarfélögin Klasi og Heild eiga lóðir á þessum svæðum og hafa frá árinu 2017 unnið náið með Reykjavíkurborg að þróun þeirra og undirbúningi uppbyggingar. Á svæðum 1 og 2 er gert ráð fyrir allt að 3.800 íbúðum í bland við atvinnustarfsemi og blómlegt borgarlíf.
