Nýi-Skerjafjörður
Að lokinni hugmyndaleit og rammaskipulagi er unnið að deiliskipulagi sem sækir innblástur frá Þingholtum og gamla Skerjafirði. Byggðamynstur einkennist af opinni randbyggð umhverfis hlýlega inngarða og fallegum borgartorgum og götum sem setja gangandi og hjólandi notendur í fyrsta forgang. Næst gamla Skerjafirði einkennist byggðin af stakstæðum húsum en eftir því sem austar dregur þéttist byggðin og hækkar. Hús eru fjölbreytt og allt umhverfi gróðursælt.
Hver er skipulagshugmyndin?

Uppbygging hverfisins mun eiga sér stað í tveimur áföngum. Í fyrri áfanga verður heimiluð uppbygging um 700 íbúða af ýmsum stærðum og gerðum, leik- og grunnskóla og bílageymsluhúsi með matvöruverslun á jarðhæð og minniháttar þjónustu. Hæðir húsa verða frá 2 til 5 hæðir. Skipulag seinni áfanga er ekki hluti þessa skipulags því ákveðið var að fara í mat á umhverfisáhrifum á nýrri landfyllingu og strönd sem er hluti seinni áfanga. Unnið verður sérstakt skipulag fyrir seinni áfangann. Fullbyggt hverfi verður með um 1300 – 1500 íbúðum sem styður við uppbyggingu nýrra skólamannvirkja og hverfisþjónustu.
Gangandi og hjólandi í forgangi
Gangandi og hjólandi notendur verða í fyrsta forgangi í allri hönnun í hverfinu. Gatnahönnun miðar við mjög hæga umferð og eru bílastæði fyrir lóðir að öllu leyti leyst í miðlægu bílastæðahúsi þó einhver bílastæði verði staðsett við götur og þá helst fyrir hreyfihamlaða. Við bílageymsluhús verður hverfistorg þar sem gert er ráð fyrir meginstoppistöð strætisvagna – Stefnt er að hverfistorg fari í sérstaka hönnunarsamkeppni.

Ströndin
Hverfið verður umlukið grænum geirum, nýju strandsvæði og milli húsa er gert ráð fyrir torgum, leik- og dvalarsvæðum og mikilli gróðursælu. Allt regnvatn sem fellur til í hverfinu verður hreinsað með blágrænum ofanvatnslausnum áður en því er veitt til sjávar. Við hönnun hverfisins er tekið sérstakt tillit til hækkunar sjávarborðs með því að staðsetja hús ekki lægra en 5 m. yfir sjávarmáli.

Hægar samgöngur
Samgöngutengingar við hverfið verða frá Einarsnesi í vestri og um nýja vegtengingu í austri sem nær suður fyrir Reykjavíkurflugvöll til viðbótar við núverandi göngu- og hjólastíga. Vegtenging til austurs verður einungis ætluð almenningssamgöngum og tengist inn á aðliggjandi deiliskipulag sem nefnist „Brú yfir Fossvog“ sem var samþykkt fyrrihluta árs 2019. Umferð um Einarsnes mun aukast vegna uppbyggingarinnar og verður núverandi gata endurhönnuð svo tryggja megi hæga og örugga umferð. Samgöngumat sem unnið er í tengslum við deiliskipulagið sýnir að áætluð heildarumferð yfir daginn verði um 7 þúsund ökutæki, sem er áþekkt götum á borð við Nesveg eða Skeiðarvogi.

Deiliskipulagskynning
Tillaga að deiliskipulagi fyrir nýja byggð í Skerjafirði var kynnt með streymi 3. júní 2020. Skoða upptökur og skipulagsgögn.
Önnur tengd verkefni
- Aðrar fjárfestingar í íbúðauppbyggingu Þétting byggðar og nýbyggingarhverfi
- Hverfisskipulag Íbúar taka þátt með virku samráði
- Brekknaás
- Sjómannaskólareitur Íbúabyggð og hverfisverndarsvæði
- Veðurstofureitur 250 íbúða byggð
- Efstaleiti (RÚV-reitur) Brátt fullbyggt hverfi
- Eggertsgata – Sturlugata Gönguleiðir og umhverfi
- Kirkjusandur Fjölbreytt íbúðahverfi þar sem áður voru verkstæði
- Hlíðarendi Vatnsmýri - 102 Reykjavík
- Vesturbugt Einstök tenging við höfnina
- Sléttuvegur Sólríkt svæði og góðar tengingar við útivistarsvæði
- Reynisvatnsás og Grafarholt Nálægð við náttúru
- Úlfarsárdalur Sólríkar suðurhlíðar
- Norðlingaholt Gatnagerð og umhverfisfrágangur fyrir nýjar íbúðir
- Vogabyggð Þægilega miðsvæðis og vel tengt hverfi