Nýi-Skerja­fjörður

Að lokinni hugmynda­leit og ramma­skipu­lagi er unnið að deili­skipu­lagi sem sækir innblástur frá Þing­holtum og gamla Skerja­firði.  Byggða­mynstur einkennist af opinni rand­byggð umhverfis hlýlega inngarða og fallegum borg­ar­torgum og götum sem setja gang­andi og hjólandi notendur í fyrsta forgang. Næst gamla Skerja­firði einkennist byggðin af stak­stæðum húsum en eftir því sem austar dregur þéttist byggðin og hækkar. Hús eru fjöl­breytt og allt umhverfi gróð­ur­sælt.

Hver er skipulagshugmyndin?

Uppbygging hverf­isins mun eiga sér stað í tveimur áföngum. Í fyrri áfanga verður heim­iluð uppbygging um 700 íbúða af ýmsum stærðum og gerðum, leik- og grunn­skóla og bíla­geymslu­húsi með matvöru­verslun á jarðhæð og minni­háttar þjón­ustu. Hæðir húsa verða frá 2 til 5 hæðir. Skipulag seinni áfanga er ekki hluti þessa skipu­lags því ákveðið var að fara í mat á umhverf­isáhrifum á nýrri land­fyll­ingu og strönd sem er hluti seinni áfanga. Unnið verður sérstakt skipulag fyrir seinni áfangann. Full­byggt hverfi verður með um 1300 – 1500 íbúðum sem styður við uppbygg­ingu nýrra skóla­mann­virkja og hverf­is­þjón­ustu.

Gangandi og hjólandi í forgangi

Gang­andi og hjólandi notendur verða í fyrsta forgangi í allri hönnun í hverfinu. Gatna­hönnun miðar við mjög hæga umferð og eru bíla­stæði fyrir lóðir að öllu leyti leyst í miðlægu bíla­stæða­húsi þó einhver bíla­stæði verði stað­sett við götur og þá helst fyrir hreyfi­hamlaða. Við bíla­geymsluhús verður hverfis­torg þar sem gert er ráð fyrir megin­stoppi­stöð stræt­is­vagna – Stefnt er að hverfis­torg fari í sérstaka hönn­un­ar­sam­keppni.

Ströndin

Hverfið verður umlukið grænum geirum, nýju strand­svæði og milli húsa er gert ráð fyrir torgum, leik- og dval­ar­svæðum og mikilli gróð­ur­sælu. Allt regn­vatn sem fellur til í hverfinu verður hreinsað með blágrænum ofan­vatns­lausnum áður en því er veitt til sjávar. Við hönnun hverf­isins er tekið sérstakt tillit til hækk­unar sjáv­ar­borðs með því að stað­setja hús ekki lægra en 5 m. yfir sjáv­ar­máli.

Hægar samgöngur

Samgöngu­teng­ingar við hverfið verða frá Einars­nesi í vestri og um nýja vegteng­ingu í austri sem nær suður fyrir Reykja­vík­ur­flug­völl til viðbótar við núver­andi göngu- og hjóla­stíga. Vegtenging til austurs verður einungis ætluð almenn­ings­sam­göngum og tengist inn á aðliggj­andi deili­skipulag sem nefnist „Brú yfir Fossvog“ sem var samþykkt fyrri­hluta árs 2019. Umferð um Einarsnes mun aukast vegna uppbygg­ing­ar­innar og verður núver­andi gata endur­hönnuð svo tryggja megi hæga og örugga umferð. Samgöngumat sem unnið er í tengslum við deili­skipu­lagið sýnir að áætluð heild­ar­um­ferð yfir daginn verði um 7 þúsund ökutæki, sem er áþekkt götum á borð við Nesveg eða Skeið­ar­vogi.

Deiliskipulagskynning

Tillaga að deili­skipu­lagi fyrir nýja byggð í Skerja­firði var kynnt með streymi 3. júní 2020. Skoða upptökur og skipu­lags­gögn.