Fjölbreytt atvinnulíf – vaxandi borg
Þekkingarkjarnar
Öflugt atvinnulíf er forsenda þess að borgin vaxi og dafni. Í Reykjavík eru helstu atvinnusvæði á höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu, hvort sem litið er til starfsemi á sviði hátækni og þekkingar, háskóla, fjármála, verslunar og þjónustu, opinberrar stjórnsýslu, menningar og lista, ferðaþjónustu, flutninga eða iðnaðar. Styrkur atvinnulífsins í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu er fjölbreytni þess. Skynsamlegt er að viðhalda þessari fjölbreytni og skapa vaxtarskilyrði fyrir sem flestar atvinnugreinar.
Rými fyrir atvinnustarfsemi
Tryggja þarf rými fyrir atvinnustarfsemi innan borgarmarka á sviði sjávarútvegs, iðnaðar, flutninga, verslunar og þjónustu, viðskipta, stjórnsýslu, hátækni, rannsókna og þekkingar, ferðamennsku, menningar og afþreyingar.

Öflug athafnasvæði
Byggð verða upp öflug athafnasvæði á Hólmsheiði, Esjumelum og Álfsnesi fyrir lítil og stór fyrirtæki. Þetta skapar fyrirtækjum bæði rými til athafna en tryggir einnig möguleika fyrir aðila sem hyggjast þróa land á þéttingarreitum og færa starfsemi sína til innan borgarinnar.
- Á Hólmsheiði verður til nýtt athafnasvæði þar sem tækifæri skapast til að byggja upp rýmisfreka starfsemi á borð við gagnaver og vöruhús í grænu umhverfi.
- Á Esjumelum verða athafnagarðar fyrir fjölbreytta starfsemi. Meðal annars eru steypustöðvar, malbikunarstöðvar og endurvinnslustöðvar að horfa til svæðisins.
- Á Álfsnesi mun Sorpa þróa grænar endurvinnslulausnir fyrir allt höfuðborgarsvæðið auk þess sem Björgun mun flytja starfsemi sína þangað.
- Á Grundartanga og í jarðhitagarði á Hellisheiði verður græn nýsköpun efld og þróuð.