Fjölbreyttar þarfir kalla á nýjar, notendamiðaðar lausnir
Stafræn umbreyting
Aðgengileg og notendamiðuð þjónusta eykur velferð og tryggir jöfn tækifæri. Með því að auðvelda íbúum að taka virkan þátt, setja stafrænar lausnir á borð við velferðartækni í forgrunn og leggja áherslu á jafnræði og velferð óháð bakgrunni tryggjum við að þjónustan byggi ekki á flokkun í sértæka hópa heldur lausnum út frá notendamiðuðu sjónarhorni.
Stafræn umbreyting og rafvæðing ferla
Stafræn umbreyting og rafvæðing þjónustuferla er mikilvægur liður í því að bæta þjónustu við íbúa Reykjavíkur. Markmiðið er að færa þjónustuna nær íbúanum með því að bjóða upp á rafrænar umsóknir, aðgengilega hönnun og mannlegt viðmót í stað umsókna á pappírseyðublöðum. Vinnan byggir á markmiðum þjónustustefnu borgarinnar, sem er að bæta, rafvæða og einfalda þjónustu Reykjavíkur.

Rannsóknir og nýsköpun
Reykjavíkurborg mun styðja við innleiðingu Græna plansins með því að nýta þau tækifæri sem felast í þátttöku í alþjóðlegum samstarfsverkefnum. Markmiðið er að efla þátttöku og árangur Reykjavíkur í rannsókna- og nýsköpunarumhverfi Evrópu, að afla þekkingar á lykiláskorunum og tækifærum í umhverfis og loftslagsmálum, að afla rannsókna- og nýsköpunarstyrkja sem styðja við og fjármagna stefnur og áherslur Reykjavíkur og að efla Reykjavíkurborg sem borg nýsköpunar og sjálfbærni.
Hönnun og umbreyting þjónustu
Skrifstofa þjónustu og umbreytinga sér um að innleiða þjónustustefnu borgarinnar, kennslu, ráðgjöf, hugmyndavinnu og þróun stafrænna lausna. Skrifstofan vinnur verkefni þvert á borgina og störf hennar aðlagast þörfum hvers verkefnis fyrir sig. Tilgangur skrifstofunnar er skýr: að setja notandann alltaf í fyrsta sæti og gera alla þjónustu borgarinnar aðgengilega, skiljanlega og einfalda.

Upplýsinga- og gagnastýring
Á árinu 2019 var lagður var grunnur að nýrri deild innan Reykjavíkurborgar sem sérhæfir sig í vinnslu og hagnýtingu gagna. Markmið deildarinnar eru tvíþætt. Annars vegar að geyma og samrýma tölulega gögn borgarinnar þannig þau séu rétt og aðgangsstýrð. Hins vegar setja gögn borgarinnar fram á aðgengilegan og myndrænan hátt, þróa skýrslur, framkvæma tölfræðigreiningar og þróa tölfræðilíkön.
Snjallmælar
Veitur hafa ákveðið að snjallvæða alla sölumæla í hita-, raf- og vatnsveitum. Snjallvæðing mæla felur í sér uppsetningu á nýjum mælum í raf-, hita- og vatnsveitum, ásamt því að koma upp samskiptakerfi á milli mælanna og miðlægs hugbúnaðar sem heldur utan um gögnin sem safnað er og stýrir gagnavinnslunni.

Upplýsingatækni og notendabúnaður
Ýmsir þættir upplýsingaþjónustu borgarinnar eru nú farnir að nálgast tæknilega skuld og í mörgum tilvikum þarf að endurskoða alveg kerfi og ferla. Þá þykir ástæða til að efla traust til þjónustunnar og koma betur til móts við þarfir notenda. Vegferð næstu ára mun því leggja áherslu á ýmsar endurbætur, meðal annars í rekstri og þjónustu, ásamt því skapa samfellu milli þróunar og reksturs upplýsingatækniinnviða borgarinnar.
Ráðstefna um stafræna vegferð borgarinnar
Rafræna ráðstefnan, Umbreyting á þjónustu í þágu borgarbúa, var send út þann 11.júní 2021. Þar leitaðist starfsfólk Reykjavíkurborgar og kjörnir fulltrúar við að gera grein fyrir stefnu og framtíðarsýn borgarinnar þegar kemur að þjónustuumbreytingu og stafrænni vegferð, hvernig og með hvaða hætti áætlað er að raungera markmið borgarinnar á næstu þremur árum og hvaða skref tekin hafa verið fram að þessu.
